Leita í fréttum mbl.is

Verk að vinna

Undirritaður var einlægur stuðningsmaður fyrri ríkisstjórnar og fannst þegar hún var mynduð að þarna myndi fara stjórn sem kæmi mörgu góðu í verk, enda mikið af hæfileikafólki tengt þeim tveimur stjórnmálaflokkum sem hana mynduðu. Fyrst eftir að ósköpin miklu dundu yfir (og um stund leit út fyrir að enginn vissi sitt rjúkandi ráð), vonaði maður að fljótlega færi að örla á forystu og sýn og að skref yrðu loks tekin í átt að Evrópusambandsaðild, svo og tiltekt í stjórnkerfinu, byrjað á Seðlabanka, sem klárlega var rúinn tiltrú á alþjóðavettvangi eftir glannalega framgöngu aðalbankastjórans og pólitíska tilburði hans.

En nei, vikurnar liðu og lítið gerðist. Jú, eitt og eitt smáatriðið var afgreitt og kannski einstaka stórir hlutir, en forystan og sýnin var ekki mjög áberandi. Þess vegna mætti undirritaður á kjallarfund Samfylkingarfélags Reykjavíkur í síðustu viku og studdi það sem fram kom þar. Nú hefur verið höggvið á þann hnút sem hertist um háls flokkanna tveggja sem mynduðu Þingvallastjórnina. Sjálfstæðisflokkurinn er móður mjög að lokinni 18 ára stjórnarsetu og veitir ekki af hvíldinni til að byggja sig upp með nýju fólki og losa sig við arfleifð Davíðstímans.

Nú hillir undir nýja ríkisstjórn - hreinræktaða rauða stjórn. Það er sjaldgæft í íslandssögunni og mun hún eiga það sammerkt með þeim fyrri að vera minnihlutastjórn og til bráðabirgða.

Það verða við hana talsverð nýmæli. Kona verður forsætisráðherra í fyrsta skipti, ef Jóhanna Sigurðardóttir verður valin til starfans eins og allt bendir til. Það er vel við hæfi að sá dugmikli jafnaðarmaður ryðji þann veg.

En það eru tækifæri til að brjóta fleiri tabú. Er ekki um að gera að láta VG hafa bæði utanríkis- og dómsmálaráðuneytið? Þetta eru ráðuneyti sem flokknum lengst til vinstri hefur aldrei verið treyst fyrir í íslandssögunni. Það eru engar forsendur fyrir því að standa á þeirri bremsu lengur. Ef VG fellst á að stíga nauðsynleg Evrópuskref, þá væri bara hressandi að fá utanríkisráðherra úr þeirra röðum og nýstárleg rödd sem þá myndi heyrast frá Íslandi. Áhugavert væri líka að fá "innanríkisráðherra" úr þeirra röðum til að koma á friði og spekt á götum úti, eftir óöldina undanfarið. Það er líka kominn tími til að gefa lögfræðingum frí frá því ráðuneyti og um að gera að brjóta það tabú líka.

En verkefnin eru annars þessi:

1. Leysa stjórn seðlabankans frá störfum.

2. Ráða einn seðlabankastjóra - helst virtan erlendan hagfræðing sem færi í að endurreisa traust á íslenskum innviðum erlendis.

3. Fá erlenda sérfræðinga til að rannsaka banka- og efnahagshrunið.

4. Grípa til róttækra aðgerða til bjargar heimilum og fyrirtækjum.

5. Breyta stjórnarskrá til að gera ráð fyrir aðild að Evrópusambandinu.

6. Sækja um aðild að Evrópusambandinu og hefja aðildarviðræður.

7. Boða til kosninga. Ganga til þeirra með það markmið að mynda vinstri stjórn eftir þær (þ.e.a.s. syngja ekki sönginn um "óbundinn til kosninga").

8. Fá aðila vinnumarkaðarins og jafnvel fleiri hagsmunasamtök í samfélaginu að samráðsborði sem hittist a.m.k. vikulega með ríkisstjórninni á meðan við erum að vinna okkur upp úr kreppunni. 

9. Upplýsa, upplýsa, upplýsa. Ríkisstjórninni væri ekki vorkunn að ljúka hverjum einasta degi með blaðamannafundi eða orðsendingu. Forsætisráðherra ætti að tala við þjóðina a.m.k. vikulega.

10. Fara út á meðal fólksins, tala mannamál, draga ekkert undan og veita fólki von um samfélag jöfnuðar sem lifir í friði við aðrar þjóðir, virðir alþjóðleg gildi heiðarleika, lítillætis og náttúruverndar, þar sem náttúran hefur gildi í sjálfu sér en ekki bara sem viðfang græðgi mannskepnunnar.

Kjósendur fá svo tækifæri til að kveða upp sinn dóm yfir flokkunum í vor. Eins hafa heyrst raddir um að íslenska stjórnkerfið hafi gengið sér til húðar og að jafnvel þurfi að stofna nýtt lýðveldi. Það er allavega tækifæri nú til að endurskoða stjórnarskrána frá grunni, en það hefur staðið til allan lýðveldistímann.

 

 

 

 

 


mbl.is Formlegar viðræður hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband