Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Staða smáríkis

Þetta er ákaflega athyglisverð greining hjá David Hale og án efa mjög nærri sanni. Smáríkjafræði er fræðigrein sem hefur verið við lýði í félagsvísindunum frá því á sjöunda áratugnum, þar sem staða hinna fjölmörgu smáríkja í alþjóðasamfélaginu hefur verið skoðuð í þaula. Kenningar hafa verið unnar upp úr þeim rannsóknum þar sem því er haldið fram að því miður séu þessi smáríki býsna viðkvæm gagnvart aðgerðum stærri ríkja á efnahags- og hernaðarsviðinu. Það hafa verið í grófum dráttum tvær leiðir sem þau hafa getað notað til að tryggja sig sem best. Önnur - og sú algengari - er nákvæmlega sú sem Hale er að lýsa í greininni. Þau geta hallað sér uppað og dvalið undir verndarvæng öflugra ríkis. Þetta höfum við Íslendingar gert alla okkar sögu allt frá því "ríki" fóru að láta til sín taka í þessum heimshluta og þar til 2006 þegar við vorum yfirgefin af 20. aldar verndaranum. Hin leiðin er sú að ganga í ríkjasamband á borð við Evrópusambandið, þar sem smáríkin ná að njörva hin stærri niður í regluverk utan um sameiginlega hagsmuni og láta þau eiga eitthvað undir sér. Þriðja leiðin - að gera hvorugt - er illfær til lengri tíma og hefur slíka vankanta og hættur í för með sér að ólíklegt er að íbúar lýðræðisríkis sætti sig við hana til lengdar (þó íbúar alræðisríkja hafi oft verið þvingaðir í slíka för).

Valið sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir til langs tíma er því - leið Davids Hale, sem fanganýlenda eða herstöð Bandaríkjamanna (ef áhugi þeirra fæst endurvakinn)  - eða að verða fullgildir aðilar að Evrópusambandinu og tryggja þar með það hámarksfullveldi sem smáríki á borð við Íslandi stendur til boða á alþjóðasviðinu.


mbl.is Leggur til að fangar verði fluttir til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband